Stjórn Orkubús Vestfjarða samþykkti fyrir skömmu að hefjast handa næsta vor við nýja litla virkjun við Mjólká að því er fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag. Kristján Haraldsson, orkubússtjóri hjá Orkubúi Vestfjarða (OV), segir um að ræða 1.1 megavatta sjálfstæða virkjun.

„Stöðvarhúsið mun verða í svokallaðri Borgarhvilft. Þar verður vatni úr Hofsárveitu sem hríslast niður hlíðarnar í Borgarhvilftina safnað saman í vatn sem heitir Prestagilsvatn."

Kristján segir að OV muni greiða þetta af eigin fé, enda vel viðráðanlegt og kosti aðeins 300 milljónir króna.

Fyrri hugmyndum um að endurnýja tækjabúnað og stækkun Mjólkárvirkjunar úr 8 í 14 megavött hefur verið slegið á frest.

„Við vorum að bjóða Landsneti þetta sem valkost til að tryggja afhendingaröryggi og hefði kostað þá rúmar 200 milljónir króna. Þeir afþökkuðu það og við gáfum það þá upp á bátinn. Það verður þó farið í að skipta út vélum sem mun þá ekki hefjast fyrr en 2011."