*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 18. nóvember 2004 17:31

Orkusvið Landsvirkjunar fær vottun í gæðastjórnun

Ritstjórn

Í byrjun nóvember náðist stór áfangi í innleiðingu gæðastjórnunar hjá Landsvirkjun. Orkusvið í heild sinni fékk vottun samkvæmt staðli ISO 9001:2000. Framkvæmdastjórn fyrirtækisins samþykkti haustið 2001 að Landsvirkjun myndi byggja gæðastjórn fyrirtækisins upp samkvæmt ISO staðli. Stjórnendur orkusviðs tóku strax vel á málum og hafa verið í forustu í innleiðingu gæðastjórnunar.

Innleiðing gæðastjórnunar á orkusviði hófst á vormánuðum 2002 og náðist fyrst vottun á Blöndustöð. Í kjölfarið komu hver aflstöðin af annarri. Fast á eftir Blöndustöð komu Sogsstöðvar: Írafoss, Ljósafoss, Steingrímsstöð og gasaflstöðin í Straumsvík, ásamt Þjórsár- og Tungnaársvæði: Búrfellsstöð, Sultartangastöð, Hrauneyjafossstöð, Sigöldustöð og Vatnsfellsstöð. Mývatnssvæði rak svo lestina innan sviðsins nú um mitt ár 2004. Það voru Kröflustöð, Bjarnarflagsstöð, Laxárstöðvar 1, 2 og 3 og varastöðin á Rangárvöllum á Akureyri.

Hluti af vottun orkusviðs náði til stoðsviða innan Landsvirkjunar. Það voru starfsmannasvið, upplýsingasvið, fjármálasvið og kerfisstjórn flutningssviðs. Þessi svið hafa nú fengið vottun á þeim ferlum sem styðja starfsemi orkusviðsins. Endaspretturinn náðist svo í haust þegar orkusviðið í heild var vottað.