Heldur hefur glaðnað yfir áformum Orkuveita Reykjavíkur sem fékk opnað fyrir ákveðnar lánveitingar fyrir skömmu. Hjá OR er áætlað að fjárefsta í Hellisheiðarvirkjun fyrir 7,2 milljarða á þessu ári.

Inga Dóra Hrólfsdóttir, sviðsstjóri tæknimála hjá OR lýsti fyrirhuguðum framkvæmdum á útboðsþingi í síðustu viku. Sagði hún að viðamesta fjárfestingin væri vegna dreifikerfis upp á 3.520 milljónir króna. Inni í því eru ný mannvirki á veitusvæðum fyrir 2.150 milljónir, endurnýjun lagna fyrir 650 milljónir, gagnaveita 420 milljónir og ýmis önnur verkefni vegna dreifikerfis upp á um 300 milljónir króna.

Annað stórverkefni er útboð upp á um 2.500 milljónir vegna byggingar yfir tvær nýjar aflvélar í nágrenni við núverandi stöðvarhús.

Þá er áætlað að verja um 600 milljónum vegna annarra verkefna tengd virkjunum og öðrum 600 milljónum vegna framleiðslu- og flutningskerfis.

Benti Inga Dóra einnig á að við uppbyggingu nýrra hverfa hafi OR farið á undan með sitt lagnakerfi. Við þann afturkipp sem orðið hafa í byggingaframkvæmdum í haust og skilum á lóðum, þá sé þar gríðarmikil fjárfesting sem komi til með að standa ónýtt um óákveðin tíma.

„Þetta er óvenjumikið og við erum með mikið fjármagn bundið í þessum hverfum sem eru auk þess erfið í rekstri þar sem þau eru svo fámenn,” sagði Inga Dóra Hrólfsdóttir.