Meirihluti stjórnar Orkuveitunnar vill selja Magma­skuldabréfið svokallaða fáist fyrir því samþykki borgarráðs. Skuldabréfið var gefið út af Magma Energy í Svíþjóð til að greiða fyrir umdeild kaup á hluta af hlutabréfum OR í HS orku. Samkvæmt síðasta árshlutareikningi OR er virði skuldabréfsins um níu milljarðar króna.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, greindi frá sölunni á vefsíðu sinni í vikunni en ekki hafa fengist upplýsingar um hugsanlegt söluverð bréfsins. „ Það kemur sér vissulega vel fyrir Orkuveituna að losa um þessa eign sína og fá þannig aukið lausafé. Á móti þarf að skoða hvort verið sé að selja umrætt bréf með of miklum afföllum, t.d. í ljósi þess að álverð hefur lækkað verulega að undanförnu og er óvenjulega lágt um þessar mundir. Það er að sjálfsögðu ekki gott fyrir Orkuveituna ef slíkt skuldabréf er selt á hálfgerðri útsölu,“ sagði í pistli Kjartans um málið.