Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi Vinstri grænna hefur ákveðið að gefa kost á sér í forvali VG í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor en forvalið fer fram 6. febrúar nk.

Í tilkynningu frá Þorleifi segist hann leggja áherslu á jafnrétti og velferð í umhverfisvænni og lýðræðislegri borg þar sem allir fá lifað með reisn.

Þorleifur á sæti í borgarráði, forsætisnefnd og stjórnkerfisnefnd borgarinnar, í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og er varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Til skamms tíma sat hann í velferðarráði, íþrótta- og tómstundaráði, umhverfis- og samgönguráði og stjórn Faxaflóahafna.

„Þegar ég tók við sem oddviti VG í borgarstjórn síðast liðið vor sinnti ég starfi formanns borgarstjórnarflokks VG sem í eru tæplega fjörutíu félagar,“ segir í tilkynningunni.

„Hópurinn fundar vikulega. Þar fara fram skoðanaskipti um málefni borgarinnar, umræður og ákvörðunartaka. Þetta hefur gefist afar vel. Þannig sé ég fyrir mér að VGR starfi á næsta kjörtímabili.“

Þorleifur er fæddur 1955, giftur Hjálmdísi Hafsteinsdóttur , félagsliða og hefur lengst af starfað sem dúklagningameistari í Reykjavík. Hann hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Reykjavíkurborg frá 2006 og sinnt starfi borgarfulltrúa frá 2007.

Þorleifur er nú oddviti VG í borgarstjórn eftir að Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, hætti í borgarstjórn. Áður hefur Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi, gefið kost á sér í 1. sæti forvalsins.