Örorkulífeyrisþegum hefur fjölgað mikið undanfarinn áratug þrátt fyrir gott atvinnuástand og voru 15.677 um síðustu áramót, eða sem nemur 8,7% af vinnuafli að því er kemur fram í nýrri samantekt Samtaka atvinnulífsins. 1.474 nýir öryrkjar bættust við á síðasta ári og hafa ekki áður verið fleiri. Sá hópur skiptist þannig að konur voru 803 og karlar 671 og var hlutfall karla heldur hærra en það hefur verið undanfarin ár.

Fjöldi þeirra sem þiggja örorkulífeyri er nú meiri en fjöldi atvinnulausra. Atvinnuleysi í janúar var 9% en það jafngildir því að 14.705 manns hafi að jafnaði verið atvinnulausir í janúar samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun. Örorkulífeyrisþegar eru þeir sem metnir eru með 75% örorku. Í skýrslu SA er bent á að þróunin valdi samfélaginu tjóni vegna minni verðmætasköpunar, hærri ríkisútgjalda og skerðingar ellilífeyris frá lífeyrissjóðum.