Eftir hryðjuverkaárásina í Orlandu nýtti samskiptavefurinn Facebook í fyrsta sinn í Bandaríkjunum möguleika sem gerir nálægum notendum vefsins kleyft að láta vita af sér á auðveldan hátt.

Byssumaður réðst á næturklúbb í borginni Orlando í Flórída og drap að minnsta kosti 50 manns í árás sem gerð er í nafni samtakanna Íslamska ríkið. Forsvarsmenn samtakanna hafa kallað eftir því opinberlega að fylgismenn hugmyndafræði samtakanna láti til skarar skríða á vesturlöndum.

Staðfestir öryggi með því að ýta á hnapp

Búnaðurinn spyr notendur sem eru á því svæði sem náttúruhamfarir, slys eða árásir eiga sér stað hvort þeir séu öruggir svo þeir geti látið vini sína vita með því að pressa á hnapp.

Milli janúarmánaðar og maí á þessu ári var hugbúnaðurinn notaður 17 sinnum meðan á sama tíma í fyrra var hann notaður 11 sinnum. Var hann meðal annars notaður nýlega eftir jarðskjálfta í Ecuador, skógarelda í Alberta fylki í Kanada, fellibyl í Bangladesh og flóð og aurskriður í Sri Lanka.

Facebook ákvað að víkka út skilgreiningu þeirra atburða sem kalla á nýtingu öryggishnappsins eftir hryðjuverkaárásirnar í París í nóvember á síðasta ári, og var hnappurinn þá nýttur í fyrsta sinn vegna hryðjuverkaárásar.