Að sögn Jóns Sigurðssonar, formanns íslensku lánaviðræðunefndarinnar, hefur verið ákveðið að hitta pólsku sendinefndina á ný 17. og 18. ágúst næstkomandi en nefndirnar áttu fund í Reykjavík 14. til 16. júlí sl. Að sögn Jóns horfir ágætlega með lán frá Pólverjum.

„Við teljum okkur vera komna býsna langt efnislega um marga þætti málsins,“ sagði Jón sem sagðist halda að viðræðunefndirnar kæmust efnislega á leiðarenda á næsta fundi og málinu lokið í september.

Pólverjar hyggjast lána Íslendingum 200 milljónir Bandaríkjadollara og hefur sú tala ekkert breyst. Að sögn Jóns eru samningarnir við Norðurlöndin fyrirmynd að samningnum hvað varðar lánstíma, endurgreiðsluskilmála og afborgunarlausan tíma.

Að sögn Jóns telur hann að viðræðunefndirnar séu komnar býsna nálægt samkomulagi um allt annað en vaxtakjörin, sem hann taldi líka vera á góðu róli. Miðað er við að samningurinn sé til 12 ára, fimm ár afborgunarlaus og greitt til baka á sjö árum.

Ath.

Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt og ofsagt er í Viðskiptablaðinu í dag að ágreiningur ríki um vaxtakjör við Pólverja. Um þau er hins vegar ósamið.