Finnbogi Jónsson, fyrrverandi forstjóri Icelandic Group, segir það skoðun sína að Framtakssjóðurinn sé eigandi að fyrirtækinu og taki ákvörðun hverjum það selji Icelandic og hvernig það er gert. Hins vegar hefði hann viljað koma að ákvörðun, sem kynnt var í fjölmiðlum, að til stæði að selja starfsemina í Bandaríkjunum. Þetta sé ekki eina tilvikið þar sem hann var ekki settur inn í framtíðarsýn sem eigandinn vill að unnið sé eftir. Það sé mikill ábyrgðarhluti að setja fyrirtæki í söluferli því á meðan er annað í bið.

„Eftir margra mánaða söluferli les ég í viðtali við Finnboga Jónsson að það hafi aldrei staðið til að selja allt fyrirtækið. Hann sjái að það muni vaxa í kældum afurðum. Stór hluti af starfsemi Icelandic í Evrópu eru frystar afurðir. Hvaða skilaboð eru það?“ spyr Finnbogi.

„Þetta er framtíðarsýn sem Finnbogi Jónsson og Ágúst Einarsson hafa. Þeir höfðu ekkert farið yfir hana með forstjóra fyrirtækisins þannig að ég vissi ekkert í hvaða vinnu ég var kominn og hvaða væntingar menn voru með um sölu starfseminnar í Bandaríkjunum.

Þegar eigendur blanda ekki yfirstjórn fyrirtækis í stefnumótun – því okkar markmið er ekkert annað en að ná markmiðum eigandans – þá eru það mjög skýr skilaboð til forstjóra fyrirtækisins. Þannig að bæði er ég ósammála að halda áfram með fyrirtækið í söluferli og ég veit ekki hver stefnan er því hún hefur ekki verið kynnt mér. Ég hef ekki fengið tækifæri til að setjast niður með Ágústi Einarssyni, stjórnarformanni FSÍ, og ræða málefni Icelandic og markmið eigandans,“ segir Finnbogi.

Hann segir að um 70 prósent af endurskipulagningu Icelandic Group sé lokið. Starfslið hans hafi lagt gríðarlega mikið á sig við að vinna sem best úr erfiðri stöðu. Nú sé talað um að heildarvirði Icelandic Group væri 53 milljarðar króna. Með sölu félagsins hefðu 24 milljarðar króna komið sem hrein innspýting í hagkerfið til lífeyrisjóðanna og 29 milljarðar króna í formi skulda hefðu farið út úr hagkerfinu.

„Ég er líka sannfærður um að allur þessi áhugi fjárfesta á fyrirtækinu er vegna þess að menn sjá að það er hægt að fara með fyrirtækið miklu lengra. Það er ákveðin viðurkenning á því sem framkvæmdastjórateymið var að gera," segir Finnbogi Baldvinsson.