Margir efnahagsgreinendur erlendis tóku yfirlýsingu Mario Draghi, forseta ECB, um að bankinn þyrfti að leita leiða til að draga úr styrkingu evrunnar, sem merki um að vextir á evrusvæðinu færu niður fyrir núllið á næstunni.

Mjög lág verðbólga hefur mælst á svæðinu að undanförnu og var verðbólgan í mars aðeins 0,5%, sú minnsta í fjögur ár. Draghi hefur áður bent á að styrking evrunnar á síðastiðnum misserum sé einn helsti orsakavaldur lækkandi verðbólgu á evrusvæðinu. Framkvæmdastjórar AGS vöruðu við neikvæðum áhrifum of lágrar verðbólgu, jafnvel verðhjöðnunar, á vorfundinum.

Eftir helgi ritaði Jürgen Stark, fyrrverandi meðlimur peningastefnunefndar ECB, grein í Financial Times  þar sem hann taldi viðbrögð AGS við verðbólgustiginu í Evrópu og vangaveltur efnahagsgreinenda um neikvætt vaxtastig vera byggðar á misskilningi.

Benti Stark meðal annars á að ECB væri, ólíkt mörgum öðrum seðlabönkum, ekki með skammtímaverðbólgumarkmið heldur tæki peningamálastefnan mið af verðbólgustigi til millilangstíma. Núverandi verðbólgustig væri því líklega eingöngu tímabundið ástand sem bankanum bæri ekki að bregðast við í ljósi þess að spáð er rúmlega 1% verðbólgu á svæðinu á næsta ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .