Óskar Bergsson hefur ákveðið að stíga til hliðar og verður því ekki oddviti framboðs Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningunum í vor. Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér fyrir skömmu segir að slakt gengi flokksins í skoðanakönnunum hafi leitt hann að þessari niðurstöðu.

Í yfirlýsingunni segir hann að þrátt fyrir stefnumál flokksins, sem hann telji að eigi hljómgrunn meðal almennings, hafi málstaður flokksins ekki náð í gegn.

„Sem oddviti framboðsins ber ég ábyrgð gengi flokksins í höfuðborginni og staðan sem við horfum á nú er grafalvarleg. Bóndi sem ekki uppsker úr jarðvegi sínum hefur aðeins um tvo kosti að velja. Það er að bregða búi eða leita annarra leiða til njóta ávaxta erfiðis síns. Þar sem tæpir tveir mánuðir eru til kosninga er enn möguleiki á því að snúa vörn í sókn. Það er því mitt mat til þess að snúa taflinu við, þá sé réttur tímapunktur núna að ég stígi til hliðar sem oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík. Í mínum huga er það algjört forgangsmál að skipt verði um meirihluta í borgarstjórn á næsta kjörtímabili og borgin nái aftur því forystuhlutverki sem hún hafði og á að hafa. Ég vil þakka öllum þeim sem hafa lagt mér lið, fyrir stuðning og vináttu sem ég mun ekki gleyma,“ segir í yfirlýsingu Óskars.