Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur óskað eftir fundi í allsherjar- og menntamálanefnd Alþings vegna frávísunar Héraðsdóms á máli þrotabús Milestone gegn Karli Wernerssyni. Í tilkynningu frá Eygló segir:

„Fram hefur komið að málið kunni að hafa fordæmisgildi gagnvart öðrum riftunarmálum og varði gífurlega fjármuni.  Rökstuðningur fyrir frávísuninni er að lagabreyting sem Alþingi gerði á gjaldþrotalögum sé ekki nægilega skýr.  Helgi Hjörvar, fyrsti flutningsmaður málsins hefur m.a. vísað til tafa við afgreiðslu Alþingis og breytingartillögu sem allsherjarnefnd gerði á málinu. Í nefndaráliti allsherjarnefndar er sagt að breytingin á frv. væri gerð samkvæmt ráðleggingum réttarfarsnefndar. Mikilvægt er að Alþingi fái upplýsingar um hvort þessar fullyrðingar séu réttar og þá hvernig bregðast megi við.“

Eygló hefur óskað eftir því fulltrúar réttarfarsnefndar, innanríkisráðuneytisins og slitastjórnar Milestone sem og gömlu bankanna komi fyrir nefndina.