„Hugmyndin er að þessi vefur sinni öllum íþróttum sem breskt samfélag hefur áhuga á. Málið er á byrjunarstigi,“ segir Óskar Hrafn Þorvaldsson sem fer utan til London á miðvikudag í þeim tilgangi að leggja grunninn að íþróttavef sem á að setja á laggirnar í Bretlandi. Íþróttavefurinn hefur ekki fengið nafn og aðrir starfsmenn hafa ekki verið ráðnir.

Óskar er reynslubolti í fréttamennsku; fyrrverandi fréttastjóri á Fréttatímanum, Stöð 2, Vísi og blaðamaður á DV á árum áður. Þá er Óskar enginn aukvisi í fótbolta en hann spilaði með meistaraflokki KR og var atvinnumaður í Noregi.

DV og Vísir greindu frá málinu í dag og sögðu að Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður Ingibjargar Pálmadóttur, eiganda 365 miðla, hefði beðið hann um að taka verkefnið að sér. Óskar segir rétt að Jón Ásgeir hafi beðið sig um að taka verkið að sér. Það sé spennandi. Óskar þvertekur fyrir að það andi köldu á milli sín og Jóns Ásgeirs eftir að hann var fréttastjóri á Stöð 2. „Við vorum klárlega ekki sammála um mörg atriði í fréttum sem fjölluðu um hann. Það liggur í hlutarins eðli. En ég er ekki óvinur neins,“ segir Óskar.

Hann segir Jón Ásgeir ekki standa á bak við íþróttavefinn heldur breskt fyrirtæki. Óskar vildi ekki segja til um það í samtali við Viðskiptablaðið hvaða fyrirtæki það er en bætti við að tíminn muni leiða það í ljós.