Samhliða gerð lánasamning við þrjá alþjóðlega banka mun Össur greiða upp lán sín gagnvart Arion banka. Tilkynnt var um í morgun að gerður hafi verið 5 ára lánasamingur við ING Bank, Nordea og SEB upp á 231 milljónir dollara.

Greining Íslandsbanka greinir frá í Morgunkorni sínu í dag. Lánið skiptist í 120 milljón dollara lán með jöfnum afborgunum og 111 milljón dollara lánalínu fyrir rekstur og möguleg fyrirtækjakaup. Lánin eru með 145 punkta álagi á LIBOR/EURIBOR en núverandi lán félagsins eru að meðaltali með um 300 punkta álagi.

Í Morgnkorni segir að lánasamningurinn muni því lækka vaxtakostnað félagsins miðað við núverandi skuldahlutföll. „Áætla má að árlegur vaxtasparnaður gæti numið um 2 milljónum dollara en nettó vaxtaberandi skuldir félagins námu um 133 milljónir dollara um síðustu áramót.

Kjörin í þessum lánasamningi verða að teljast góð og með þessari endurfjármögnun hefur Össur tryggt sér alþjóðlegan aðgang að lánsfé sem er mjög mikilvægt fyrir samkeppnishæfni og vaxtarmöguleika félagins. Samhliða þessu mun Össur greiða upp lán sín gagnvart Arion banka.“