Össur hefur keypt 9.863.578 hluti í sjálfu sér á genginu 364 og jafngilda viðskiptin því um 3,59 milljörðum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu til Kauphallarinnar.

Hlutirnir nema 2,2% af heildarhlutafé félagsins og á það nú samtals 12.106.755 hluti í sjálfu sér. Félagið hyggst svo leggja til lækkun hlutafjár á aðalfundi ársins 2015 sem nemur andvirði kaupanna.

„Þetta er í samræmi við okkar stefnu. Við höfum gefið það út að við viljum koma peningum út til hluthafa og gerum það með þessum kaupum. Í samræmi við áðurútgefna stefnu munum við svo leggja til að bréfin verði felld úr gildi á næsta aðalfundi,“ segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, í samtali við Viðskiptablaðið.

„Ástæðan fyrir þessu er að við erum í þeirri skringilegu aðstöðu að íslensk lög gera það að verkum að við getum ekki gert þetta með öðrum hætti. Við vildum helst gera þetta úti á markaði og kaupa þetta bara af markaðnum, en íslensku ákvæðin gera það ómögulegt. Og þess vegna verðum við að kaupa þetta í svona „block trade“.“