Í dag var tilkynnt um að Mallard Holding S.A. sem er í eigu Össurar Kristinssonar stofnanda Össurar hf. hefði selt 30 m.kr. að nafnvirði í félaginu eða sem samsvarar 9,4% hlut í félaginu. Kaupendur voru fjárfestingarsjóðurinn William Demant sem jók hlut sinn úr 16,1% í 20,2%, Eyrir fjárfestingarfélag sem keypti 0,6% og Mycenaean Holding sem keypti einnig 0,6%. Þau 4,6% sem eftir standa er líklegt að hafi dreifst á nokkra smærri hluthafa.

Frá því í byrjun júní á síðasta ári hefur Mallard Holding því minnkað hlut sinn í Össuri úr 25% í 9,3%. Á sama tíma hafa skandinavísku fjárfestingarsjóðirnir Industrivarden og William Demant verið að bæta við sig í félaginu og eru nú orðnir tveir stærstu hluthafar þess.

Gengi Össurar stóð í stað í dag og er gengi félagsins nú 81,5 kr. á hlut og hefur hækkað um 6,54% frá áramótum.

Byggt á Vegvísi Landsbankans.