„Mér þóttu ræðurnar hvorki vondar né leiðinlegar. En ég er sem þingmaður orðinn hundleiður á þessu máli,“ segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Hann fór mikinn í dag eftir að EFTA-dómstóllinn sýknaði Ísland í Icesave-málinu morgun. Fyrir hádegi var hann spurður í þaula um málið í fjölmiðlum. Eftir hádegið gaf hann svo munnlega skýrslu um dómsniðurstöðuna á Alþingi.

Fjöldi þingmanna steig í pontu og fór þar yfir Icesave-málið og niðurstöðu EFTA-dómstólsins. Þar á meðal rifjaði Lilja Mósesdóttir, sem er utan flokka, að andstæðingar Icesavesamninganna á þingi hafi á sínum tíma verið kallaðir villikettir. Lilja sagði Icesave-málið hafa klofið þingflokk VG og leitt m.a. til þess að hún hvarf úr flokknum.

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagðist hafa rætt um Icesave-málið alltof oft. Þetta verði hennar síðasta Icesave-ræða.