Stjórnendur Össurar gera ráð fyrir að sala ársins verði 310-320 milljónir dala á þessu ári. Á fyrri helmingi ársins nam salan um helmingi þessarar tölu, eða 159 milljónum dala. Salan var töluvert meiri í fyrra en gert er ráð fyrir í ár, eða 350 milljónir dala.

Stjórnendur gera ráð fyrir að hagnaður fyrir afskriftir, EBITDA, verði 58-62 milljónir á árinu, sem er umtalsvert minna en í fyrra þegar EBITDA var 79 milljónir. Þá var EBITDA óvenjulega há vegna einskiptisliða, en jafnvel án þeirra var hún tæpar 73 milljónir dala, eða 21% af veltu.

Í ár er gert ráð fyrir að EBITDA sem hlutfall af veltu verði 18-19%, sem er svipað og á fyrri helmingi ársins.

Jón Sigurðsson segir efnahagsþrengingar hafa áhrif á sölu

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir að efnahagsþrengingar á öllum helstu mörkuðum félagsins hafi haft áhrif á sölu og viðskiptavinir fari varfærnislega vegna óvissu um ástandið. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu. Þar er ennfremur haft eftir Jóni: „Samningar við suma birgja í Evrópu hafa ekki verið endurnýjaðir sem hefur tímabundið neikvæð áhrif á sölu í Evrópu en ekki arðsemi. Skýr stefna í sölu og markaðsmálum í Bandaríkjunum gefur von um jákvæða þróun. Ný útgáfa af rafeindastýrða hnénu RHEO KNEE II sem og staðfesting á að rafeindastýrði fóturinn PROPRIO FOOT hahfi verið samþykktur inn í endurgreiðslukerfið í Bandaríkjunum eru mikilvægir áfangar fyrir framtíð bionic vörulínunnar.“