Össur valið þekkingarfyrirtæki ársins af Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Þetta er í áttunda sinn sem Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga stendur fyrir Íslenska þekkingardeginum þar sem veitt eru þekkingarverðlaun.

Í umsögn dómnefndar sagði: "Össur hefur náð frábærum árangri í gegnum tíðina. Fyrirtækið hefur vaxið ört síðustu ár  m.a. í gegnum samruna við önnur fyrirtæki og frá árinu 2000 hefur fyrirtækið sinnt uppkaupum á 13 fyrirtækum. Fyrirtækið hefur lagt áherslu á að vaxa í gegnum nýsköpun og þróun. Össur er leiðandi fyrirtæki í heiminum í hönnun stoðtækja og er annar stærsti stoðtækjaframleiðandi í heimi. Frá árinu 1999 hefur starfsmönnum fjölgað úr 120 í 1600 manns í dag sem starfa í 3 heimsálfum. Megin undirstaða að velgengni fyrirtækisins byggir á kjarnagildum fyrirtækisins sem eru heiðarleiki, hugrekki og hagsýni.  Þrátt fyrir hraðan vöxt fyrirtækisins þá hafa stjórnendur skýra framtíðarsýn og lagt upp með árangursríka stefnumörkun varðandi samruna og yfirtökur þar sem drifkraftar áangurs hafa verið virkjaðir í allri samþættingu meginferla. Það er sama til hvaða þátta er litið, öflugur leiðtogi, góður rekstur, en fyrirtækið hagnaðist um rúmar 490 milljónir á síðasta ári og jókst hagnaðurinn um 74% á milli ára, sala jókst um 33%, öflug stefnumótun sem byggir á sterkri fyrirtækjamenningu og vöruþróun og nýsköpun sem er eitt aðalsmerki Össurar. Mannauðsstjórnun Össurar hvílir á öflugri starfsmanna- og menntastefnu sem leggur grunn að hvetjandi starfsumhverfi þar sem hæft og vel þjálfað starfsfólk er veitt umboð til athafna sem knýr framþróun fyrirtækisins í alþjóðlegu viðskipta- og fyrirtækjaumhverfi. Fyrirtækið býr við sterkra ímynd og starfsemi fyrirtækisins hefur vakið mikla athygli víða um heim og slagorð Össurar „Líf án takmarkanna“ segja meira en mörg orð."

Dómnefndin starfaði í umboði stjórnar Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga sem ákvað að þessu sinni að þema þekkingarverðlaunanna skyldu vera “Drifkraftar árangurs”. Verkefni dómnefndar var þess vegna að velja þekkingarfyrirtæki ársins þar sem sýnt þykir að að allir meginþættir í rekstrinum mynda samþætta heild sem skilar afburða árangri s.s. stefna og stefnumótun, öflug forysta, sterk fyrirtækjamenning, nýsköpun og vöruþróun, mannauðsstjórnun, markaðssetning, umhverfismál, samfélagsleg ábyrgð og auk ábyrgs rekstrar.

Stjórn félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga ákveður með hvaða hætti skal unnið að því að komast að niðurstöðu um þekkingarfyrirtæki ársins.

Í fyrsta lagi var þess farið á leit við félagsmenn Félags viðskiptingafræðinga og hagfræðinga að þeir svöruðu vefkönnun þar sem tilnefna átti fyrirtæki sem viðkomandi teldi framúrskarandi á sviði Drifkrafta árangurs. Jafnframt átti að tilgreina ástæður fyrir valinu á fyrirtækinu sem tilnefnt var. Að auki getur dómnefnd tilnefnt fyrirtæki.

Þrjú fyrirtæki voru tilnefnd til þekkingarverðlauna Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga og mun ég mun nú nefna þessi þrjú fyrirtæki í stafsrófsröð.

Þau eru: Kaffitár Norðurál Össur

Allt eru þetta vel þekkt fyrirtæki sem hafa náð að virkja drifkrafta til árangurs.

Formaður dómnefndar var Gylfi Dalmann Aðalsteinsson. Í dómnefndinni voru einnig; Ásta Dís Óladóttir, dósent við Bifröst, Ingrid Kuhlman framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar, Sigurður Már Jónsson, aðstoðarritstjóri Viðskiptablaðsins og Guðrún Högnadóttir þróunarstjóri stjórnendaskóla Hákólans í Reykjavík. Með dómnefndinni starfaði einnig Sigurlaug Sævarsdóttir, framkvæmdastjóri FVH.