Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu á borgarstjórnarfundi í dag eftir sérstakri umræðu um frumvarp til sveitarstjórnarlaga sem samþykkt var á Alþingi þann 17.september sl. Megintilefni umræðunnar var það ákvæði laganna sem fjallar um að borgarfulltrúum verði fjölgað úr 15 í 23-31.

Í fréttatilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum segir að oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, Hanna Birna Kristjánsdóttir, hafi lýst andstöðu sinni við þessa niðurstöðu og áréttað þá afstöðu að það sé bæði óþarft og óskynsamlegt að fjölga borgarfulltrúum. Hanna Birna benti einnig á að þetta er enn ein aðgerð ríkisvaldsins sem feli í sér aukinn kostnað við yfirstjórn og stjórnsýslu, á sama tíma og verið sé að hagræða og spara á öllum öðrum sviðum.

Orðrétt sagði Hanna Birna í ræðu sinni: „Á sama tíma og verið er að spara og hagræða í öllu samfélaginu og skilaboðin frá borgaryfirvöldum eru eðlilega að ekki sé hægt að fjölga starfsfólki, er það óskiljanlegt að samþykkt sé að fjölga borgarfulltrúum. Ég tel þetta óþarfa og óskynsamlega ákvörðun, sem mun ekki bæta þjónustu við fólkið í borginni heldur mun þvert á móti gera stjórnsýsluna enn flóknari og auka kosnað. Betra væri að borgarstjórn sjálf færi nýjar leiðir til að nýta betur þá krafta sem þegar eru til staðar. Með nýjum vinnubrögðum væri þannig hægt að skipta verkum borgarfulltrúa með eðlilegri hætti og nýta krafta meirihluta og minnihlutans án aukins kostnaðar. Með þeim hætti yrði lýðræðið eflt, samhliða því sem störf borgarstjórnar allrar í þágu borgarbúa yrðu meiri og betri."