„Mín skoðun er sú að hvað svo sem fólki kann að finnast um þá hugmynd að til verði eitt atvinnuvegaráðuneyti þá er þetta í öllu falli ekki rétta tímasetninginn til þess. Það liggur ljóst fyrir að stærstu hagsmunamálin í ESB aðildarviðræðunum snúa að landbúnaði og sjávarútvegi og í því ljósi má ekki á nokkurn hátt veikja stöðu þessara atvinnugreina innan stjórnsýslunnar," skrifar Ásmundur Einar Daðason þingmaður Vinstri grænna á heimasíðu sína í dag.

Hann segir fjölmiðla hafa reynt að draga upp þá mynd að Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé sá eini sem sé mótfallinn því að sameina ráðuneyti undir atvinnuvegaráðuneyti. „Því fer fjarri heldur er það svo að margir ESB andstæðingar, bæði í grasrót VG og í hinum dreifðu byggðum landsins hafa af þessu miklar áhyggjur," skrifar Ásmundur og málið hefði verið rætt á þingfundi VG á mánudaginn.