Lánasjóður sveitarfélaga hefur ráðið Óttar Guðjónsson hagfræðing sem framkvæmdastjóra. Óttar hefur lokið meistaranámi í hagfræði frá Háskóla Íslands og meistaranámi í fjármálum frá London Business School.

Þetta kemur fram á vef Lánasjóðsins.

Þar kemur fram að Óttar hefur víðtæka reynslu og þekkingu vegna fjölbreyttra starfa sinna á fjármálamarkaði.  Hann hefur unnið sem forstöðumaður í Markaðsviðskiptum og Fjárstýringu hjá Glitni banka frá árinu 2003, en hafði áður starfað hjá Kaupþingi og Landsbréfum.

Þá hefur Óttar starfað um fjögurra ára skeið á fjármálamarkaðnum í London, fyrst þrjú ár hjá SEB og síðar hjá R. Raphael & Sons.

Óttar er kvæntur Hlín Hjartar Magnúsdóttur og eiga þau tvær dætur.

Óttar tekur við starfinu af Þorsteini Þorsteinssyni, sem lætur af störfum um næstu áramót að eigin ósk. Óttar tekur til starfa með haustinu og mun starfa fyrstu mánuðina með fráfarandi framkvæmdastjóra.

Lánasjóður sveitarfélaga er opinbert hlutafélag í eigu íslenskra sveitarfélaga og hefur að markmiði að tryggja sveitarfélögunum lánsfé til framkvæmda á hagstæðum kjörum. Starfsemi sjóðsins hefur farið mjög vaxandi á undanförnum árum og eru útistandandi lán sjóðsins nú yfir 40 ma.kr.