Óttar Pálsson, hæstaréttarlögmaður, hefur gengið til liðs við LOGOS lögmannsþjónustu og verður einn eigenda félagsins. Óttar mun veita viðskiptavinum ráðgjöf um löggjöf á fjármálamarkaði, fjárfestingar og fjármögnun fyrirtækja auk þess að sinna málflutningi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Logos.

Úr tilkynningu:

„Óttar gegndi starfi forstjóra Straums-Burðaráss fjárfestingabanka hf. (nú ALMC hf.) frá mars 2009 til loka síðasta árs og leiddi á þeim tíma fjárhagslega og rekstrarlega endurskipulagningu félagsins. Óttar tók sæti í stjórn ALMC hf. í september 2010 og mun sitja áfram í stjórninni samhliða lögmennsku.

Óttar var framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Straums á tímabilinu 2006 til 2009. Þar áður starfaði hann hjá A&P lögmönnum og LOGOS lögmannsþjónustu, sem meðeigandi á árunum 2002 til 2006.

Óttar lauk embættisprófi í lögfræði frá Lagadeild Háskóla Íslands árið 1997, stundaði nám við Kaþólska háskólann í Löven, Belgíu, árið 1996 og lauk meistaragráðu (LL.M.) í félaga-, banka- og verðbréfarétti árið 2001 frá University College London.  Óttar varð hæstaréttarlögmaður árið 2006.“