Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, segist óttast að tækifæri til þess að selja bíla úr landi sé runnið Íslendingum úr greipum.

,,Laugardaginn 11. okt. lagði ég til á blogginu hjá mér að gjöld yrðu endurgreidd af notuðum bílum til að auðvelda útflutning og skapa þannig gjaldeyri. Nokkrum dögum síðar kom fram fyrirspurn á Alþingi um þennan möguleika.

Í gær, 11. des., tveimur mánuðum síðar er frumvarpið loks orðið að lögum. Þessi óralangi tími til að afgreiða ekki flóknara mál hefur líklega gert það að verkum að tækifærið er runnið okkur úr greipum og er kannski lýsandi fyrir vinnubrögðin almennt á þingi og í kerfinu.

Bílgreinin rennir þó blint í sjóinn og auðvitað vonum við það besta. Við erum með margar fyrirspurnir erlendis frá sem við getum nú loks farið að vinna úr. En á þessum tíma sem málið þvældist um í kerfinu þá hefur heimsmarkaður fyrir bíla dregist verulega saman og tækifærin runnið okkur úr greipum."