Verði frumvarp um neytendalán að lögum þá mun fólk ekki geta keypt bíl á bílasölu eftir lokun banka eða á þeim dögum sem bankar eru lokaðir, að mati Guðfinns Halldórssonar bílasala. Hann gagnrýndi frumvarpið í blaðaauglýsingu um helgina enda telur hann að nýtt ákvæði feli í sér að þeir sem ætli að kaupa bíl og taka lán fyrir kaupunum sem nemur tveimur milljónum eða meira þurfi að gangast undir greiðslu- og lánshæfismat hjá banka.

Helgi Hjörvar, formaður efnahgas- og viðskiptanefndar Alþingis, segir í samtali við Morgunblaðið að þetta tiltekna atriði hafi ekki verið rætt sértaklega. Hann bendir á að með frumvarpinu sé verið að treysta umgjörð þessara lánveitinga, sérstaklega upplýsingagjöf til neytenda, greiðslumat og aðra slika þætti. Það eigi ekki að hafa mikil áhrif á þau lán sem verið er að veita í dag.