Íslenskir lögmenn eru nú nær tvisvar sinnum fleiri en þeir voru um síðustu aldamót og er staðan á vinnumarkaði sú að nýbakaðir lögmenn eiga margir erfitt með að finna sér vinnu. Formaður Lögmannafélagsins segist hafa áhyggjur af því að háskólarnir séu e.t.v. að slaka á kröfum til nemenda.

Félagar í Lögmannafélagi Íslands voru 529 talsins árið 2000, en um síðustu áramót voru þeir orðnir 1.002, sem er aukning upp á 89,4%. Íbúar á hvern lögmann voru 527,5 árið 2000, en aðeins 321,2 um síðustu áramót. Hvergi á Norðurlöndunum er þetta hlutfall svona lágt, en Norðmenn komast næst með 630 manns á hvern lögmann, enda eru lögmenn hvergi fleiri á Norðurlöndunum en þar, eða 8.000.

Samkvæmt tölum frá LMFÍ eru finnskir lögmenn 1.960 talsins og því um 2.766 Finnar á hvern lögmann þar í landi. Í Svíþjóð eru 5.278 lögmenn og 1.810 Svíar á hvern lögmann og í Danmörku eru 5.893 lögmenn og um 947 Danir á hvern lögmann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.