*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Innlent 21. september 2019 13:03

Óveður sem stendur enn yfir

Framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair Group segir að kyrrsetningu Boeing MAX véla félagsins megi líkja við að óveður sem hófst í mars en hafi ekki enn slotað.

Ástgeir Ólafsson
Eyþór Árnason

Eins og margoft hefur verið fjallað um hefur kyrrsetning Boeing 737 MAX véla Icelandair haft umtalsverð áhrif á rekstur félagsins, eins og kostnaðarmat sem birt var við uppgjör annars ársfjórðungs gaf til kynna. Að sögn Birnu Óskar Einarsdóttur, framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs Icelandair Group er ástandið í raun svipað og ef óveður væri búið að geysa frá því í mars.

„Um miðjan apríl kom einmitt óveður sem er eitthvað sem gerist reglulega í okkar rekstri enda starfsemin okkar á Íslandi. Þetta veldur miklu raski í leiðakerfinu hjá okkur, þar sem áætlun vélanna er þétt og það tekur um tvo til þrjá sólarhringa eftir að veðrinu slotar að allt jafni sig aftur.

Ef ég ætti að lýsa stöðunni varðandi MAX-vélarnar þá má segja að það hafi komið óveður um miðjan mars sem stendur enn yfir og því enginn tími til að jafna sig. Sérstaklega nú yfir hásumarið þar sem við erum með þétta áætlun fyrir   allan flotann. Við ætluðum að vera með níu MAX vélar í sumar og til þess að lágmarka tjón félagsins, og áhrifin á farþega okkar og íslenska ferðaþjónustu, ákváðum við að leigja inn fimm vélar yfir sumartímann til að geta staðið við áætlun okkar eftir bestu getu. Eðli málsins samkvæmt hefur reynt á alla starfsmenn, til að mynda í þjónustuveri, en þeir hafa á sama tíma sýnt það besta sem býr í Icelandair – öfluga og lausnamiðaða þjónustulund.

Til að setja hlutina í samhengi yfir háannatímann, þá hefðu yfir 100.000 farþegar ekki komist á leiðarenda í júní ef við hefðum ekki brugðist við og bætt leiguvélum við flotann. Það var staða sem hvorki við né farþegar okkar hefðu viljað vera í, fyrir utan áhrifin sem það hefði haft á íslenska ferðaþjónustu. Þannig að við höfum reynt að gera okkar besta í þessum erfiðu aðstæðum.“

Einfaldasta aðgerðin ekki í boði 

Icelandair hefur í sumar orðið fyrir töluverðri gagnrýni vegna leiguvéla sem félagið hefur tekið inn vegna kyrrsetningar MAX-vélanna en ljóst er að þær vélar hafa ekki uppfyllt þá þjónustu sem Icelandair auglýsir og býður almennt upp á. Birna segist hafa fullan skilning á gagnrýninni en félagið hafi þó gert sitt besta miðað við aðstæður. „Þegar þú ert með svona mikla starfsemi og mikið af farþegum þá verður að gæta jafnræðis sem þýðir að annaðhvort leysir þú þetta eins vel og þú getur fyrir alla eða þú fellir niður öll flugin sem er eitthvað sem viðskiptavinir vilja alls ekki. Þetta voru því ekkert flóknari valkostir en þetta. Það voru flugfélög sem felldu niður öll sín MAX flug sem hefði í raun verið einfaldasta aðgerðin,“ segir Birna.

„Fyrir íslenska ferðaþjónustu og það sem við stöndum fyrir þá hefði það hins vegar aldrei gengið upp. Eins og ég nefndi áður þá töldum við rétt að leigja inn vélar til að koma farþegum okkar á áfangastað. Það er hins vegar alveg á hreinu að þetta er ekki varan sem við viljum bjóða en í krísuástandi viljum við frekar standa við skuldbindingar okkar með þessari lausn.“

Nánar er rætt við Birnu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Boeing Icelandair 737 MAX