Ein óvenjulegasta yfirtaka ársins er vafalaust yfirtaka breska bankans Koryo-Asia á norður-kóreska bankanum Daedong Credit Bank, en í bankanum starfa aðeins fimm mans, segir í frétt Financial Times.

Um fimmtíu virkir reikningar eru skráðir hjá bankanum og hafa bandarísk stjórnvöld fryst mikið af sjóðum hans.

Koryo-Asia, sem er með aðsetur í London, keypti 70% hlut í bankanum, en með yfirtökunni vonast Koryo-Asia til að styðja við fjármögnun Chosun-sjóðsins, sem nota á til fjárfestinga í uppbyggingu í Norður-Kóreu.

Eignir Daedong nema um 700 milljónum króna, en um 400 milljónir voru frystar af bandarískum stjórnvöldum í september síðastliðnum. En Bandaríkin segja að aðgerðir þeirra beinist aðeins að peningaþvætti og fölsun sem fram fari í stórum stíl í Norður-Kóreu, þó svo að engar sannanir hafi verið lagðar fram um aðild Daedong að málinu, segir í fréttinni.

Talsmenn Koryo-Asia halda því fram að eignum Daedong hafi verið safnað á löglegan hátt og skora á Bandaríkin að reiða fram þau gögn sem þau telji sig hafa sem réttlæti aðgerðirnar.

Aðgerðir Bandaríkjanna hafa ekki aðeins slæm áhrif á viðskiptatengsl við Norður-Kóreu, en efnahagsástandið þar í landi er með því verra sem þekkist í dag. Aðgerðirnar hafa einnig stöðvað allar viðræður um kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu, en Kim Jong-il neitar öllum samskiptum á meðan refsiaðgerðir Bandaríkjanna eru ennþá í gildi, segir í fréttinni.