Fjármálastjórar telja meiri óvissu ríkja um reksturinn nú heldur en árið 2014 ef marka má niðurstöður rannsóknar Catherine Elisabet Batt, doktorsnema við Háskólann í Reykjavík. Í rannsókninni voru fjármálastjórar fyrirtækja spurð­ir um ýmsa óvissuþætti í rekstrinum á skalanum einn til fimm en flestir þættirnir hækkuðu á milli 2014 og 2017. Mesta aukning óvissunnar var þegar kom að þróun á hráefnismörkuðum og alþjóðavæðingu og erlendri samkeppni en þar á eftir töldu fjármálastjórar óvissuna aukast mest þegar kemur að nýjum vörum frá keppinautum. Á heildina litið hækkaði óvissustigið úr 2,84 upp í 3,12 af 5 mögulegum í könnuninni. Þó var lítilleg lækkun á tveimur óvissuþáttum, fjárhagslegu umhverfi fyrirtækja annars vegar og þegar kemur að lögum og reglugerðum hins vegar.