Hagfræðideild Landsbankans væntir þess að peningastefnunefnd ákveði að halda stýrivöxtum óbreyttum á vaxtaákvörðundegi bankans 15. maí næstkomandi, þ.e. í næstu viku. Deildin segir í Hagsjá sinni í dag að við vaxtaákvörðun nefndarinnar ráði mestu óvissan um myndun nýrrar ríkisstjórnar og óvissa í ríkisfjármálum á kjörtímabilinu.

Hagfræðideildin segir að færa megi góð rök fyrir lækkun vaxta og bendir á að verðbólga hafi hjaðnað töluvert á síðustu mánuðum. Hún mælist nú 3,3%, sem er vel innan efri vikmarka verðbólgumarkmiðsins. Lægri verðbólga en óbreyttir vextir þýðir að öðru óbreyttu að raunstýrivextir hafa hækkað og aðhald peningastefnunnar því aukist á þann mælikvarða, að sögn hagfræðideildarinnar. Því til viðbótar hefur gengi krónunnar styrkst verulega frá áramótum.

Rifjað er upp að síðustu yfirlýsingar Peningastefnunefndarinnar hafi jafnan endað á því að þetta aðhald verði aukið eftir því sem efnahagsbatanum vindur fram. Spurningin sé einungis hvort það gerist með hærri nafnstýrivöxtum eða lægri verðbólgu.

Hagfræðideildin segir hins vegar:

„Eins eru ýmis teikn á lofti um að hægt hafi á hjólum efnahagslífsins undanfarið og heimilin haldi að sér höndum í neyslu, t.a.m. ef marka má þróun greiðslukortaveltunnar. Samhliða vaxtaákvörðuninni birtir Seðlabankinn Peningamál 2013/2 með nýrri þjóðhagsspá. Ef Seðlabankinn fylgir fordæmi annarra opinberra spáaðila og lækkar hagvaxtarspá sína kann það að kalla á að aukinn stuðning peningastefnunnar við efnahagsbatann í formi vaxtalækkunar.“