Enn ríkir óvissa um afdrif frumvarps ríkisstjórnarinnar um Icesave-ríkisábyrgðina. Fjárlaganefnd Alþingis hefur fundað um málið frá því klukkan 8.30 í morgun.

Fundur stendur enn yfir. Bankastjóri Seðlabankans, Svein Harald Øygard og aðstoðarseðlabankastjóri, Arnór Sighvatsson, voru að yfirgefa fundinn.

Þingfundur Alþingis hefst kl. 15 í dag en Icesave-málið er ekki á dagskrá.

Stjórnarliðar hafa um helgina reynt að ná þverpólitískri sátt um fyrirvara við ríkisábyrgðina en slík pólitísk sátt virðist ekki í sjónmáli, þegar þetta er skrifað.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að ef gera eigi nauðsynlegar breytingar á Icesave-samningunum verði það ekki gert án nýrra viðræðna. „Það er hrein sjálfsblekking að halda öðru fram," segir hann.