Á miðvikudagsmorgun birtir Hagstofan vísitölu neysluverðs fyrir júlí og þær spár sem birtar hafa verið opinberlega gera ráð fyrir 0,55% til 0,7% hækkun á milli mánaða, segir greiningardeild Glitnis.

?Fyrir nokkrum vikum spáðum við 0,6% hækkun vísitölunnar en ljóst er að nýleg bensínverðhækkun færir þá spá upp í 0,7% hækkun. Óvissa spárinnar virðist meiri en oft áður þar sem þættir á borð við útsöluáhrif og áhrif gengislækkunar krónunnar vinna nú í gagnstæðar áttir. Þá virðist óvissa spárinnar einnig ósamhverf og er hún fremur upp á við en niður á við þótt niðurstaðan geti vitaskuld reynst hvorum megin spárinnar sem er," segir greiningardeildin.

Rætist úr spánni mun verðbólgan mælast 8,7% og segir greiningardeildin það slæm tíðindin fyrir innlendan fjármálamarkað.

?Enn er bið í að kólnun á íbúðamarkaði skili sér í verðlækkun á milli mánaða samkvæmt mælingum Hagstofu og dragi þannig úr mældri verðbólgu. Hins vegar er líklegt að kólnandi íbúðamarkaður verði þáttur sem heldur aftur af verðbólgu á seinni hluta ársins, en íbúðamarkaður var einn helsti drifkraftur verðbólgu á síðasta ári," segir greiningardeildin.