Alls er óvíst hvort Icelandair Group verður skráð á hlutabréfamarkaði í Kauphöllina í Ósló á þessu ári, til viðbótar við skráninguna í Kauphöll Íslands.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri félagsins, segir að enn séu atriði sem þurfi að komast á hreint áður en ákvörðun verður tekin. Ekkert sé þó breytt hvað stefnuna varðar um skráningu í Ósló.

Icelandair Group tilkynnti í febrúar síðastliðnum að ákveðið hafi verið að endurvekja skráningarferli í erlenda kauphöll, og að litið sé til kauphallarinnar í Ósló. Ferlinu hafði verið frestað í september á árinu 2010.

Enskilda Banken AB í Ósló er umsjónaraðili ferlisins og er Icelandair Group til aðstoðar. Forsvarsmenn Icelandair hafa á síðustu vikum hitt erlenda markaðsaðila í tengslum við mögulega skráningu. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins flækja efnahagsaðstæður hérlendis skráningarferlið, ekki síst gjaldeyrishöftin.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.