Skiptar skoðanir eru á meðal sérfræðinga í bresku fjármálalífi um hversu líklegt sé að fjárfestingarsjóðir muni yfirtaka smásölufyrirtækið Sainsbury, sem Baugur á um tvö prósent hlut í.

Markaðsvirði Sainsbury, sem er þriðja stærsta matvöruverslunarkeðjan í Bretlandi, er 17,31 milljarðar Bandaríkjadala og ef af yfirtökunni verður er um að ræða stærstu fjárfestingu sem fjárfestingarsjóðir hafa gert í Evrópu. Í nóvember síðastliðnum var danska símafyrirtækið TDC yfirtekið fyrir 13,9 milljarða dollara.

Sainsbury tilkynnti fyrr í þessum mánuði að fyrirtækið væri aðeins komið á byrjunarstig að meta þann áhuga sem fjárfestingarsjóðirnir CVC Capital, Kohlberg Kravis Roberts & Co og Blackstone Group International hefðu sýnt fyrirtækinu. Yfirtökunefnd Bretlands fór síðan fram á að fjárfestingarsjóðirnir gerðu betur grein fyrir áhuga sínum, en orðrómur um hugsanlega yfirtöku hafði stuðlað að miklum hækkunum á gengi hlutabréfa félagsins. Fjárfestingarsjóðirnir staðfestu áhugann en sögðu að málið væri aðeins á byrjunarstigi.

Í kjölfarið hefur síðan fjárfestingarsjóðurinn Texas Pacific Group bæst í hópinn. Einnig er uppi orðrómur um að Goldman Sachs, sem veitir fjárfestingarhópnum ráðgjöf, sé að íhuga að fjármagna yfirtökuna að hluta til í gegnum fjárfestingarsjóð sinn.

Frá því að fregnir bárust af hugsanlegri yfirtöku á Sainsbury hafa bréf í félaginu hækkað um átján prósent. Að mati eins sérfræðings hjá Citigroup bankanum eru markaðir of bjartsýnir á að yfirtakan gangi í gegn. Margar hindranir séu enn í veginum, eins og til dæmis lífeyrismál fyrirtækisins, stærð samsteypunnar og hvers konar útgönguleið fjárfestingarsjóðirnir sjái fyrir sér. Steve Davies, sérfræðingur um smásölumarkaðinn hjá Numis fjárfestingarbankanum, telur hins vegar að góðar líkur séu á því að fjárfestingarsjóðirnir muni yfirtaka Sainsbury. Davies segir að á síðustu fjórum til fimm árum hafi í aðeins í kringum 20% tilfella orðið eitthvað úr því þegar fregnir hafa borist að fjárfestingarsjóðir hyggist kaupa í smásölufyrirtækjum. Í þessu tilfelli séu líkurnar aftur á móti töluvert meiri, enda þótt margt geti enn komið í veg fyrir það.

Smásölufyritækið Marks & Spencer, sem einnig er með matvörustarfsemi í rekstri sínum, hefur sömuleiðis verið orðað við að reyna yfirtöku á Sainsbury. Sérfræðingar telja það þó mjög ólíklegt þrátt fyrir að slíkt tilboð væri í sjálfu sér ekki óskynsamlegt.