Páll Harðarson segir í viðtali við Bloomberg að hann sjái fram á að allt að fimm fyrirtæki skrái sig í Kauphöllina á næsta ári.

Páll segir að losun gjaldeyrishafta sé að flýta fyrir áætlunum fyrirtækja um að skrá sig á markað, þar eð loksins fari fjármagn að streyma aftur til landsins.

Eftir að ríkisstjórnin lýsti því yfir að þrotabú bankanna hefðu til áramóta til að klára viðræður við kröfuhafa sína - ella þyrftu þau að greiða 39% eignaskatt - hefur lokun búanna gengið mikið hraðar. Búist er við að þeim verði flestum lokað í kringum mars á næsta ári.

Páll segir í við Bloomberg að tilkynning ríkisstjórnarinnar í júní hafi verið mikill vendipunktur fyrir hagkerfið. Gengi hlutabréfa hefur hækkað um rúm 41% frá byrjun árs 2015, og viðskipti með hlutabréf hafa aukist um 65-70% síðan í júní.

„Nú skiptir bara máli hvernig við getum komið í veg fyrir að fjármagnið komi of hratt inn í landið í of miklu magni,” segir Páll við fréttaveituna. „Áhyggjur af fjármagnsflótta heyra nú sögunni til.”

Eins og stendur eru 17 fyrirtæki skráð á markað, miðað við að þau voru 75 talsins árið 1999. Páll segir í viðtalinu að mögulegt sé að heil fimm félög skrái sig á hlutabréfamarkað, og að þrjú félög skoði aðild að First North markaðnum.

Páll minnist á að talað hafi verið um að bjóða út hlutabréf í olíusölufyrirtækinu Skeljungi og upplýsingatæknifélaginu Advania.