Páll Magnússon, útvarsstjóri mun skila bíl þeim er hann hefur haft til  umráða frá því að hann var ráðinn útvarpsstjóri.

Þetta kom fram á starfsmannafundi með starfsmönnun Ríkisútvarpsins (RÚV) en sem kunnugt er hefur á þriðja tug starfsmanna RÚV verið sagt upp störfum í gær og í dag. Þar á meðan eru starfsmenn svæðisútvarps RÚV, Kastljóssins og fréttastofunnar auk annarra.

Nokkuð hefur verið gagnrýnt að útvarpsstjóri hafi fengið dýra bifreið, Audi Q7, til umráða á meðan nauðsynlegt hefur verið að skera niður á öðrum sviðum félagsins.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er bílinn á rekstrarleigu og því verður að greiða upp rekstrarleigusamninginn þegar bílnum verður skilað. Ekki liggur ljóst fyrir hver sá kostnaður verður.

Fjárhagsvandræði RÚV hafa verið nokkuð í umræðunni síðustu misseri en gífurlegur fjármagnskostnaður hefur sligað rekstur RÚV síðust árin en þegar RÚV var breytt í opinbert hlutafélag vorið 2007 sat það uppi með allar lífeyrisskuldbindingar gömlu stofnunarinnar.

Samkvæmt síðasta ársreikningi námu lífeyrisskuldbindingar rúmlega 3 milljörðum króna eða rúmlega ¾ af langtímaskuldum RÚV.

Í samtali við Viðskiptablaðið í október s.l. sagði Páll að rekstur félagsins horfði nú til betri vegar eftir taprekstur síðustu ára. í upphafi árs 2009 var 560 milljóna króna skuld RÚV við ríkissjóð breytt í hlutafé en ljóst var í upphafi ársins að eigið fé félagsins var uppurið. Með þeirri aðgerð er gert ráð fyrir að eigið fé RÚV, sem var aðeins 30,9 milljónir króna og hafði lækkað um tæpar 850 milljónir á 18 mánuðum, verði jákvætt í árslok.

Gert er ráð fyrir 10% hagræðingarkröfu hjá RÚV á fjárlögum þessa árs þannig að tekjur félagsins verði um 3.200 milljónir króna. Ríkissjóður áætlar engu að síður að innheimta sama útvarpsgjald (nefskatt) og í ár, 3.575 milljónir króna, en þar af fær RÚV aðeins 90% af nefskattinum.

Afkoman batnaði á milli ára

Tap RÚV á síðasta rekstrarári, 1. september 2008 til 31. ágúst 2009, nam rúmlega 271 milljón krónum eftir fjármagnsliði, samanborið við tap upp á 736,5 milljónir á sama tíma í fyrra.

Samkvæmt ársuppgjöri RÚV batnaði afkoman þannig um 465 milljónir króna á milli ára.

Tap ársins mátti að öllu leyti rekja til mikils fjármagnskostnaðar vegna verðbólgu og gengislækkunar íslensku krónunnar en rekstur stofnunarinnar lagast nokkuð á milli ára. Þannig skilaði rekstur RÚV rúmlega 628,2 milljóna króna hagnaði fyrir skatta og fjármagnsliði (EBIDTA), samanborið við tæpar 184 milljónir króna á sama tíma í fyrra.

Eigið fé RÚV var þá 515 milljónir króna en á sama tíma árinu áður var eigið fé RÚV neikvætt um 8,6 milljónir króna.