Páll Ragnar Jóhannesson mun láta af störfum sem framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar hjá Straumi fjárfestingabanka. DV greinir frá þessu.

Þar kemur fram samkomulag hafi náðst um starfslokin en að Páll muni verða bankanum innan handar næstu mánuði. Leó Hauksson muni hins vegar taka við stöðunni, en hann hefur verið yfirmaður viðskiptaþróunar hjá bankanum frá því um haustið 2013.

Óformlegar sameiningarviðræður standa nú yfir milli Straums og MP banka, eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku. Undirbúningur hefur staðið yfir að undanförnu og líta stórir eigendur í hluthafahópum beggja félaga jákvæðum augum til sameiningar.