Pálmi Haraldsson hefur keypt 12% hlut í sænsku ferðaskrifstofunni Ticket Travel Group AB, segir í frétt sænska dagblaðsins Dagens Industri. Félagið er skráð í kauphöllina í Stokkhólmi.

Í frétt Dagens Industri segir að Pálmi hafi verið að byggja upp hlut sinn í félaginu síðustu tvær vikur og að kaupin nemi um 40 milljónum sænskra króna, eða rúmlega 317 milljónum íslenskra króna, og að hann sé nú stærsti hluthafinn í félaginu.

Pálmi Haraldsson er einnig stærsti hluthafinn í sænska lággjaldaflugfélaginu FlyMe og samþykkti á síðasta ári að selja Sterling-flugsamstæðuna til FL Group fyrir 15 milljarða króna.