Verslunin Parket og Gólf auglýsir nú í gluggum sínum að fyrirtækið selji engar breskar vörur. Framkvæmdastjóri P.O.G. segir vera um að ræða viðskiptabann á Breta.

„Hugmyndin með þessu er nú fyrst og fremst að sýna samlöndum sínum samstöðu á þessum síðustu og verstu tímum,“ segir Skafti Harðarson, framkvæmdastjóri P.O.G. „Fyrir okkur í P.O.G. eru heimatökin hins vegar hæg, þar sem við höfum ekki verslað mikið við Bretland til þessa. En það gefur augaleið að viðskipti okkar við Englendinga verða engin á meðan það andar svona köldu í samskiptum þjóðanna.“

Að sögn Skafta kviknaði hugmyndin þegar það kom í ljós að Bretar ætluðust til þess að Íslendingar stæðu í skilum vegna ICESAVE reikninga Landsbankans í Bretlandi. Slíkar kröfur eru algjörlega óviðunandi, að mati Skafta, enda ljóst að það fæli í sér að íslenska þjóðin yrði bundin á skuldaklafa um ókomna tíð.

Þó svo að P.O.G. hyggist ekki taka inn í verslunina breskar vörur á næstunni býður framkvæmdastjórinn þó Breta búsetta á Íslandi velkomna í búðina.

„Ég rak gólfefnaverslanir í Bretlandi um árabil og kann vel við hinn almenna Breta. Enda ljóst að hinn almenni borgari þar í landi ber enga ábyrgð á aðgerðum stjórnvalda í London,“ segir Skafti.

Hversu lengi viðskiptabann P.O.G. verður á Bretland er ekki gott að segja, en Skafti segir þó dagljóst að um leið og búið verði að greiða úr flækju þjóðanna hilli undir lok bannsins.