Þótt ótvírætt virðist að gengi krónunnar hefði lækkað enn frekar hefðu fjármagnshöftin ekki verið sett á, er afar erfitt að meta hversu mikið gengi krónunnar hefði getað lækkað.

Lauslegt mat með þjóðhagslíkani Seðlabankans gefur þó til kynna að gengi krónunnar hefði hæglega getað lækkað í 260-300 kr. gagnvart evru og jafnvel enn meira við ákveðin skilyrði. Þetta er svipað gengi og á aflandsmarkaðnum þegar það var lægst.

Þetta kemur fram í peningamálum Seðlabankans undir sérkafla um hlutverk gjaldeyrishafta.

Seðlabankinn segir að í kjölfar þess að aðgengi Íslendinga að erlendu lausafé til að fjármagna mikinn viðskiptahalla hafi lokaðist skyndilega snemma árs 2008 hafi gengi krónunnar lækkað verulega.

„Þessi skyndilegu umskipti ágerðust enn frekar eftir því sem alþjóðlega fjármálakreppan magnaðist sem að lokum leiddi til hruns innlends bankakerfis. Þegar komið var fram í lok októbermánaðar 2008 hafði gengi krónunnar fallið um rúmlega 50% frá ársbyrjun,“ segir í peningamálum.

„Þessi gríðarlega gengislækkun olli skuldsettum íslenskum heimilum og fyrirtækjum miklum búsifjum. Hún hafði einnig í för með sér að verðbólga fór í tæplega 20% í lok árs 2008.“

Þá segir að meginverkefni sameiginlegrar efnahagsstefnu stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins strax í kjölfar gjaldeyris- og bankakreppunnar hafi því verið að koma í veg fyrir enn frekari gengislækkun og skapa þannig heimilum og fyrirtækjum skjól á meðan efnahagur þeirra væri endurreistur og endurskipulagður. Talin hafi verið veruleg hætta á keðjuverkandi flótta fjármagns í eigu innlendra og erlendra aðila út úr krónueignum sem hefði lækkað gengi krónunnar og magnað enn frekar ofangreinda ágjöf á efnahag innlendra aðila, að sögn Seðlabankans.

„Til að ná þessum markmiðum með hefðbundnum tækjum vaxta og inngripa á gjaldeyrismarkaði hefði þurft að hækka vexti verulega og stækka gjaldeyrisforða Seðlabankans,“ segir í peningamálum.

„Óæskileg hliðaráhrif slíkra leiða og verulegar efasemdir um að þær myndu duga einar og sér urðu til þess að talið var nauðsynlegt að takmarka tímabundið fjármagnshreyfingar til og frá landinu. Í skjóli slíkra hafta gæfist einkaaðilum ráðrúm til að endurskipuleggja fjárhag sinn og stjórnvöldum svigrúm til þess að koma fjármálakerfinu á fætur á ný og ná tökum á ríkisfjármálunum. Höftin hafa einnig skapað peningastefnunni svigrúm til að lækka vexti töluvert án þess að það grafi undan gengisstöðugleika. Ljóst er því að höftin hafa gegnt lykilhlutverki í endurreisn þjóðarbúsins í kjölfar gjaldeyris- og bankakreppunnar.“

Fram kemur að niðurstöður útreikninga Seðlabankans séu mjög háðar því hversu hratt peningastefnan bregst við með hækkun vaxta og hversu lengi fjárfestar vænta hárra vaxta í framtíðinni.

„Að auki má færa rök fyrir því að gengislækkunin hefði getað orðið enn meiri en þessar hermanir með þjóðhagslíkani bankans gefa til kynna þar sem þær taka líklega ekki nægjanlegt tillit til mögulegra áhrifa smæðar íslensks gjaldeyrismarkaðar og gera ekki ráð fyrir því að vítahringur lækkandi gengis og hækkandi áhættuþóknunar á íslenskar fjáreignir myndist,“ segir í peningamálum.

„Slíkur vítahringur gæti hæglega myndast þar sem mikil lækkun gengis gæti leitt til holskeflu gjaldþrota innlendra aðila, félagslegs og pólitísks óstöðugleika, aukinnar verðbólgu og hækkandi áhættuþóknunar, sem síðan leiðir til enn frekari gengislækkunar.“

Höftunum fylgir kostnaður til lengri tíma

Seðlabankinn seigir að gjaldeyrishöftin hafi átt mikinn þátt í því að koma á gengisstöðugleika, sérstaklega eftir að þau fóru að virka sem skyldi þegar líða tók á síðasta ár. Þau séu hins vegar umdeild, enda ekki gallalaus.

„Meðal ókosta þeirra má t.d. nefna hefðbundinn efnahagslegan kostnað sem fylgir viðskiptahindrunum af hvaða tegund sem er og þá hagrænu sóun sem skapast þegar einstaklingar og fyrirtæki eyða kröftum sínum í að leita leiða fram hjá þeim og stjórnvöld kröftum sínum í að koma í veg fyrir brot á reglunum,“ segir í peningamálum.

„Allt eru þetta kraftar sem væru betur nýttir á öðrum sviðum, þjóðarbúinu til meira gagns.“

Þá segir að innlendum aðilum sé einnig gert afar erfitt að verjast gjaldmiðlaáhættu með notkun skiptasamninga. Hagnaðarvonin af því að komast hjá reglunum sé einnig til þess fallin að grafa undan almennu viðskiptasiðferði og löghlýðni sem að öðru óbreyttu getur skaðað langtímahagvaxtargetu þjóðarbúsins.

„Samkeppnisstaða þeirra sem tilbúnir eru að brjóta reglurnar skekkist jafnframt gagnvart þeim sem löghlýðnari eru,“ segir í peningamálum.

Þá telur Seðlabankinn líklegt að tilvist gjaldeyrishaftanna dragi að einhverju leyti úr áhuga alþjóðlegra fjárfesta á því að koma með fé inn í landið af ótta við að síðar verði nýjar reglur settar sem komi í veg fyrir að þeir geti tekið fé sitt út úr landinu á ný. Þá kunni óttinn við hrun krónunnar þegar höftunum yrði aflétt einnig að halda aftur af erlendri fjárfestingu.

„Þessi kostnaður er ekki eins sýnilegur og ábatinn af því skjóli sem höftin veita krónunni, en hann er alveg jafn raunverulegur,“ segir í peningamálum.

„Hins vegar er líklegt að kostnaðurinn hafi hingað til verið minni en ella þar sem aðrar ástæður hafa haldið aftur af innstreymi erlends fjármagns inn í landið. Kostnaðurinn mun hins vegar ágerast eftir því sem tíminn líður, auk þess sem framfylgd haftanna verður æ erfiðari eftir því sem einstaklingar og fyrirtæki finna leiðir fram hjá þeim í leit að skjótfengnum ábata. Því er mikilvægt að gjaldeyrishöftin verði afnumin svo fljótt sem auðið er. Afnám þeirra má þó ekki verða til þess að grafa undan gengi krónunnar og tefla þar með endurreisn þjóðarbúskaparins í tvísýnu.“