Peningamarkaðurinn bar höfuð og herðar yfir ávöxtun innlendra fjármagnsmarkaða í nóvember en hann skilaði 1,1% nafnávöxtun meðan aðrir fjárfestingakostir skiluðu neikvæðri nafnávöxtun, segir greiningardeild Glitnis.

?Um 0,5% neikvæð ávöxtun varð á verðtryggðum skuldabréfum en ávöxtunarkrafa þeirra hækkaði í mánuðnum, ekki síst á styttri enda vaxtaferilsins. Má meðal annars rekja þá þróun til þess að spáð var lítilli og jafnvel lækkun á neysluverðsvísitölu í mánuðinum.

Reyndin varð lítilsháttar lækkun sem dregur úr ávöxtun verðtryggðra bréfa. Krafan á óverðtryggð skuldabréf hækkaði einnig mikið og skiluðu óverðtryggð skuldabréf 1,5% neikvæðri ávöxtun,? segir greiningardeildin,

Gengi hlutabréfa lækkaði um 2,3% í mánuðinum. ?Gengi ISK lækkaði um 3,7% á sama tímabili sem eykur ávöxtun erlendra eigna um sama hlutfall. Erlendir markaðir gáfu ágæta ávöxtun á mánuðinum, Evrópuvísitala Morgan Stanley hækkaði m.a. um 4,3% og bandarísk hlutabréf hækkuðu um 2,5%,? segir greiningardeildin.

Ávöxtun á árinu 2006

Hún segir að úrvalsvísitalan hefur hækkað um 14,5% á árinu og hafa hlutabréf skilað bestri ávöxtun fjárfestingakosta á árinu.

?Spá Greiningar er að hækkun vísitölunnar verði á bilinu 15-25% á árinu. Að okkar mati er rými fyrir nokkra hækkun félaga sem vega þungt í vísitölunni og því teljum við rými fyrir hækkun Úrvalsvísitölunnar í desember. Miðað við núverandi gildi vísitölunnar er líklegt að hækkun vísitölunnar verði í neðri hluta fyrrgreinds spábils,? segir greiningardeildin.

Það sem af er ári hefur peningamarkaðurinn veitt um 11,4% ávöxtun ?sem er frábær ávöxtun fyrir áhættulausa fjárfestingu.?

?Í ljósi hárrar raunávöxtunar á peningamarkaði og væntinga um litla hækkun á vísitölu neysluverðs í mánuðinum má búast við því að ekki verði mikil breyting á skuldabréfamarkaði.

Það er þó háð því að gengi krónunnar gefi ekki mikið eftir en gerist það má búast við að krafa íbúðabréfa gæti lækkað lítillega. Búast má við því að krafa ríkisbréfa komi til með að hækka frá því sem nú er vegna aukinna væntinga um hækkun stýrivaxta í desember,? segir greiningardeildin.