Bakgrunnur ákvörðunar peningastefnunefndar Seðlabankans, um að halda stýrivöxtum óbreyttum í 12%, er að gengi krónunnar hefur verið umtalsvert lægra en nefndin taldi viðunandi í mars, eins og fram kom í fundargerð þá.

Þetta kemur fram í rökstuðningi nefndarinnar en sem kunnugt er ákvað nefndin í morgun að halda stýrivöxtum óbreyttum í 12%. Vextir á viðskiptareikningum fjármálafyrirtækja verða áfram 9,5%.

Í rökstuðningi nefndarinnar segir að verðbólga og verðbólguvæntingar hafi einnig aukist og það megi að mestu rekja til umtalsverðrar gengislækkun krónunnar frá marsmánuði og nýlegrar hækkunar óbeinna skatta.

„Peningastefnunefndin leggur áherslu á að stuðla að stöðugleika krónunnar, bæði á meðan höft á fjármagnshreyfingar eru til staðar og þegar þau verða afnumin,“ segir í rökstuðningi nefndarinnar.

„Á meðan höftin eru fyrir hendi hafa utanríkisviðskipti umtalsverð áhrif á gengi krónunnar. Þrátt fyrir bata í vöru- og þjónustujöfnuði hefur rýrnun viðskiptakjara og verulegar árstíðarbundnar vaxtagreiðslur til erlendra aðila haft neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð. Í ljósi þess er mikilvægara en ella að nægur hvati sé til staðar til þess að halda eignum í krónum, sem mælir gegn frekari lækkun vaxta.“

Sjá nánar á vef Seðlabankans.