Phillip Green hyggst auka þrýsting sinn á Marks & Spencer nú í vikunni með því að greina frá frekari útrás verslunarveldis síns. Green ætlar að opna nýjar verslanir og leggur þar mesta áherslu á verslanir með kvennfatnað. Samkvæmt breskum fjölmiðlum hyggst Green opna 58 nýjar verslanir á þessu ári og er það liður í frekari útvíkkun hans á vörumerkjum eins og Topshop og Burton en þau eignaðist hann með kaupum á Arcadia. Um leið á hann í viðræðum um leigu og kaup á samtals um 500.000 fermeta húsnæði undir verslanir.

Þessu til viðbótar hefur Green fundið um 60 vænlega staði undir nýjar Topshop verslanir en ekki hefur verið tekin ákvörðun um opnun þar. Öllu þessu á að fylgja mikil auglýsingaherferð í sjónvarpi og er það í fyrsta skipti í áratug sem BHS verslunarkeðjan grípur til slíks.

Talið er að þessum aðgerðum sé meðal annars beint að Marks & Spencer verslunarkeðjunni en Green hefur haft augastað á henni um skeið og ítrekað reynt að yfirtaka hana. ?Þetta er tómt bull," sagði Green þegar hann var spurður um þessi áform og bætti við: ?Ég er búinn að gleyma þessu öllu. Þetta er það sem við ætlum að gera enda viljum við efla verslunarrekstur okar eins og við getum."

Byggt á netútgáfu The Daly Telegraph