*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Innlent 9. apríl 2019 07:33

Pinterest safnar 155 milljörðum

Hlutafjárútboð í tengslum við skráningu verðleggur félagið minna en einkafjárfestar gerðu fyrir tveimur árum.

Ritstjórn
epa

Myndasafnssíðan Pinterest stefnir á skráningu á markað og hyggst félagið safna 1,3 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem jafngildir um 155 milljörðum íslenskra króna í hlutafjárútboði samhliða skráningunni.

Býður félagið 75 milljónir hluta á milli 15 og 17 dali sem myndi verðmeta félagið nokkuð undir þeim 12 milljörðum dala, eða 1.429 milljörðum íslenskra króna sem einkafjárfestar verðmátu félagið á árið 2017.

Það gæti verið slæmt merki fyrir aðrar skráningar sem áætlaðar eru á árinu í tæknimarkaðnum, þar með talið Uber, en þvert á móti safnaði keppinautur þess, Lyft meira en búist var við samhliða skráningu félagsins í upphafi árs. Síðan þá hefur gengi félagsins lækkað.

Pinterest er þekkt fyrir að vera með trausta viðskiptavini og notendur sem pósti á síðuna alls kyns myndum sem oft sýni innanhúsarkitektúr, mat og brúðkaupsmyndir og annað sem notendum þyki fallegt.

Félagið var stofnað árið 2010 og segir það að 80% bandarískra húsmæðra séu notendur í dag, en að meðaltali eru notendurnir 265 milljón. Félagið tapaði um 63 milljónum dala á síðasta ári, en tekjur þess jukust um 60%, og námu 756 milljónum dala á árinu.

Goldman Sachs, JPMorgan og Allen & Co sölutryggja útboðið en félagið verður undir skammstöfuninni PINS í kauphöllinni í New York að því er FT greinir frá.