Fylgi Pírata mældist 15% í síðustu fylgismælingu MMR.  Þetta er tæplega einu og hálfu prósnetustigi meira fylgi en flokkurinn var með í síðustu mælingu og eru Píratar nú með næst mest fylgi allra stjórnmálaflokka landsins. Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur minnkað um tæp tvö prósentustig frá síðustu mælingu og er nú 21,7%. Stuðningur við ríkisstjórnina jókst hins vegar um tæp 5 prósentustig og mældist nú 46,5% miðað við 41,8% í síðustu mælingu.

Fylgi Framsóknarflokksins minnkar mest milli mælinga. Stuðningur við hann mældist nú 8,7 en var 11,1% í síðustu könnun. Lítil breyting var á fylgi Samfylkingarinnar milli mælinga en flokkur var með 13,9% nú miðað við 13,8% í síðustu könnun. Fylgi Vinstri grænna minnkaði um eina prósentu úr 11,4% niður í 10,4%. Fylgi Viðreisnar mældist nú 9,0% en var 9,4%. Fylgi Flokks fólksins mældist nú 5,4% en mældist 4,7% í síðustu könnun.

Hástökkvarar mælingarinnar nú eru Miðflokkurinn sem mælist nú 10,2% en var með 8% í síðustu könnun. Og Sósíalistaflokkur Íslands sem jók fylgi sitt um tvö prósentustig upp í 4,5%.

Úrtakið voru einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR sem eru valdir úr Þjóðskrá þannig að þeir endurspegli lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar á hverjum tíma. Samtals svöruðu 926 einstaklingar könnuninni sem var framkvæmd á dagana frá 4. til 9. apríl síðastliðinn.