Kjósendur Vinstri-grænna eru líklegastir til að taka þátt í uppbyggjandi samveru með öðru fólki, eða 74%. Ólíklegastir til þess eru kjósendur Framsóknarflokksins, eða 52,3% en það er talsvert minna en hjá kjósendum annarra flokka. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR.

Þegar kemur að líkamsrækt eru kjósendur Framsóknar og Pírata ólíklegastir til þess að mæta í ræktina. Þannig stunda einungis 44% Framsóknarmanna líkamsrækt og 46% Pírata. Duglegastir eru kjósendur Vinstri-grænna og Bjartrar framtíðar að stunda líkamsrækt, á bilinu 60-61%.

Fólk með heimilistekjur á bilinu 250-600 þúsund er ólíklegra til að stunda líkamsrækt, á bilinu 44-47% á meðan um og yfir 55% í öðrum tekjuhópum stundar líkamsrækt.

Hvað stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar varðar eru þeir talsvert líklegri til að vakna endurnærðir heldur en þeir sem ekki styðja hana. Þannig vakna 73,5% stuðningsmanna endurnærðir á meðan 63,2% þeirra sem ekki styðja hana gera það.