Bandaríska karlatímaritið Playboy býður nú þarlendum viðskiptakonum að koma fram í blaðinu undir nýjum þætti í tímaritinu sem kallast „Wall Street konurnar“ (e. Women of Wall Street).

Samkvæmt frétt MSNBC hefur blaðið, í ljósi aðstæðna á fjármálamörkuðum, ákveðið að skoða nýja hlið á fjármálakrísunni og þá með kómískum hætti. Myndirnar munu birtast í febrúarútgáfu blaðsins á næsta ári.

„Þegar slæmar fréttir dynja yfir okkur þá er kannski tækifæri til að koma fólki til að brosa með því aðferðum sem sjá hlutina frá öðru sjónarhorni,“ segir Gary Cole, ljósmyndaritstjóri Playboy.

Tímaritið leitar nú bæði núverandi og fyrrverandi kvenkyns starfsmanna á Wall Street til að sitja fyrir og segir í frétt MSNBC að helst sé leitast eftir þeim sem eru eða hafa verið í yfirmannsstöðum.

„Það væri mun skemmtilegra að vera með greiningaraðila,“ segir Cole og bætir því við að gera megi ráð fyrir að þúsundir fagurra kvenna starfi á Wall Street.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem tímaritið einbeitir sér að viðskiptakonum því áður hefur blaðið verið með þema sem þetta í kjölfar erfiðleika einstakra fyrirtækja eða vandamála í atvinnulífinu.

Þannig hefur Playboy áður verið með þema undir nöfnunum Girls of Olive Garden og Women of Home Depot.

Að sögn MSNBC, en er blaðamanni Viðskiptablaðsins að sjálfsögðu ókunnugt með öllu, voru frægustu þemaþættirnir Women of Enron og Women of WorldCom eftir að risafélögin tvö hrundu fyrir nokkrum árum.

Að sjálfsögðu þurfa stúlkurnar að vinna fyrir fjármálafyrirtæki eða hafa unnið fyrir slíkt fyrirtæki nýlega. Varla þarf að taka fram að þær þurfa að vera 18 ára.