Plötusala á Íslandi var 8% minni árið 2012 en árið 2011. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag og er vísað í Tónlistann sem tekur saman sölutölur úr stærstu smásöluverslunum landsins. Árið 2011 var metár í plötusölu hér á landi en sala ársins 2012 var 10% betri en 2009 og 25% betri en árið 2010.

Mest selda platan ársins 2012 var Dýrð í dauðaþögn með Ásgeiri Trausta sem seldist í um 22 þúsund eintökum en árið 2011 var það Haglél með Mugison sem seldist best og þá í um 30 þúsund eintökum. Aðrir listamenn seldu einnig vel, til að mynda fór plata Of Monsters and Men, My Head Is an Animal í um tíu þúsund eintökum á árinu. Platan hafði einnig selst í um 10 þúsund eintökum árið 2011 þegar hún kom út. Retro Stefson seldu yfir fimm þúsund eintök af sinni plötu á meðan Bubbi Morthens seldi um 3.500 eintök af plötunni Þorpið sem kom út síðasta vor.

Sala á erlendum plötum er mun minni og þær vinsælustu eru langt frá vinsælum íslenskum plötum hvað sölu varðar. Strákabandið One Direction seldi um 1.500 eintök af plötunni Take Me Home og sömu sögu er að segja um kanadíska ungstirnið Justin Bieber.