Nú fara hljómplötuútgefendur bráðlega að setja sig í startholurnar fyrir jólaplötuflóðið. Útgáfa á íslensku efni er sífellt að aukast og er ljóst að keppnin verður hörð og að útgefendur verða að halda rétt á spilunum. Um helmingur af plötusölu fer fram á síðustu þremur mánuðum ársins og mun því afkoma plötuútgefenda ráðast að miklu leyti af hvernig þeim reiðir af á næstu mánuðum. Ólöglegt niðurhal á netinu hefur einnig valdið plötuútgefendum áhyggjum undanfarin ár og virðist það vera að aukast enn frekar og eru því margir plötuútgefendur farnir að huga að nýjum dreifingarleiðum.

Útgáfufyrirtækið Sena, sem er dótturfyrirtæki Dagsbrúnar, býr við markaðsráðandi stöðu í útgáfu íslenskrar tónlistar og segir á heimasíðu Senu að markaðshlutdeildin sé á bilinu 65-75%, en smærri útgáfufyrirtæki hafa verið að berjast um það sem eftir er og verður því fróðlegt að sjá hvernig markaðurinn lítur út fyrir þessi jólin. Minni plötuútgefendur, á borð við 12 tóna og Smekkleysu, horfa þó bjartir fram á veginn og hyggjast mæta samkeppninni að fullu með sterkum útgáfum frá þekktum listamönnum.

Árið 2005 seldust um 823 þúsund plötur á Íslandi og nam heildarsala 750,9 milljónum króna, en það er aukning frá árinu áður. Þá seldist 761 þúsund eintök og nam heildarsalan um 703 milljónum króna. Sala á íslenskri tónlist hefur aukist talsvert undanfarið, árið 2001 seldust 312 þúsund plötur en árið 2005 var salan 444 þúsund plötur og er því ljóst að þar eru miklir hagsmunir að baki.

Ítarleg fréttaskýring er um tónlistarmarkaðinn í Viðskiptablaðinu í dag.