„Þetta er mikill fengur fyrir Íslandssjóði, mun hafa mikil samlegðaráhrif og veita félaginu aukinn kraft til sóknar. Áhrifin á starfsemi VÍB eru sáralítil,“ segir Haraldur Örn Ólafsson um flutning á eignastýringu verðbréfasafna fyrir einkabankaþjónustu VÍB, eignastýringaþjónustu Íslandsbanka, yfir til Íslandssjóða. VÍB er hluti af Íslandsbanka en Íslandssjóðir eru sjálfstætt fyrirtæki.

Íslandssjóðir tóku í maí síðastliðnum yfir rekstur verðbréfa- og fjárfestingarsjóða Rekstrarfélags Byr í kjölfar sameiningar Íslandsbanka og Byrs.

Breytingarnar nú eru liður í almennum skipulagsbreytingum á starfsemi félagsins í ljósi aukinna umsvifa. Hjá VÍB voru um 43 starfsmenn og flytjast þrír í eignastýringardeildinni yfir til Íslandsjóða. Eftir breytinguna verða starfsmenn Íslandssjóða 18 talsins og um 40 hjá VÍB.

Norðurpóll - Suðurpóll - Íslandsbanki

Haraldur Örn Ólafsson hæstaréttarlögmaður hefur í tengslum við breytingarnar verið ráðinn framkvæmdastjóri Íslandssjóða frá og með september. Hann tekur við af Öglu E. Hendriksdóttir, sem mun gegna starfi framkvæmdastjóra fram að þeim tíma en mun svo leiða sjóðastýringarstarfsemi félagsins. Hún mun jafnframt verða staðgengill framkvæmdastjóra.

Haraldur er þekktur fyrir að ganga á Norðurpólinn fyrir tólf árum. Hann hefur jafnframt gengið á Everest og farið til Suðurpólsins. Hann hefur um árabil unnið á lögfræðideild Íslandsbanka og verið ráðgjafi bæði Íslandssjóða og VÍB.

Hann segir Íslandssjóði og VÍB hafa átt í nánu samstarfi um langt skeið og muni breytingin ekki hafa áhrif á aðra starfsemi VÍB.